Beint í efni

ABENA Þvaglekavörur

Þvaglekavörur frá ABENA – Öryggi, þægindi og virðing í fyrirrúmi

ABENA býður upp á fjölbreyttar og áreiðanlegar þvaglekalausnir sem veita notendum öryggi og frelsi í daglegu lífi. Vörurnar eru hannaðar til að tryggja hámarks rakadrægni, húðvernd og þægindi – með virðingu fyrir þörfum hvers og eins.

Bæklingar

documentthin

Fræðsluefni

documentthin

Vörubæklingur

documentthin

Notkunarleiðbeiningar

documentthin

Húðvörubæklingur

Hvað er þvagleki?

Þvaglekavörurnar frá ABENA eru framleiddar í Danmörku við hæstu gæðakröfur. Vörurnar koma í mörgum stærðum, gerðum og með mismikilli rakadrægni og mæta þar með fjölbreyttum þörfum notenda.

Þvaglekavörurnar frá ABENA eru framleiddar úr efni sem andar sérstaklega vel auk þess sem þær eru með Top-Dry kerfi sem heldur yfirborði varannar þurru og kemur þar með í veg fyrir að raki liggi við húð. Vörurnar eru allar með hágæða lekavörn og lyktarkerfi sem dregur í sig lykt og takmarkar þar með óþægindi sem henni kann að fylgja. Stærri þvaglekavörurnar eru með rakamagnslínum á bakhlið sem segja til um hversu mikið er eftir af líftíma vörunnar og hjálpa til við að hámarka notkun.

Þvaglekavörurnar frá ABENA eru án allra ilmefna, eru ofnæmisprófaðar og nær allar Svansmerktar.

Gerðir Þvagleka

  • Áreynsluþvagleki
    Fólk missir þvag við áreynslu, til dæmis þegar viðkomandi hoppar, hnerrar, hlær og/eða hóstar. Við áreynsluna eykst þrýstingurinn í blöðrunni, ytri lokuvöðvinn nær ekki að halda blöðrunni lokaðri, lætur undan þrýstingi og þvag lekur út. Áreynsluþvagleki orsakast yfirleitt þegar stuðningur vöðva og liðbanda grindarbotnsins við blöðruna minnkar eða brestur að fullu. Það getur gerst til að mynda eftir barnsburð, brottnáms blöðruhálskirtils eða annarra aðgerða í grindarholi.
  • Bráðaþvagleki
    Tengist stjórn tauga og heila á losun þvags. Fólk fær skyndilega mikla þvaglátaþörf og nær sjaldan á salerni. Lítil eða engin stjórn er á ytri lokuvöðvanum og það byrjar bara að leka; stundum nokkrir dropar en það getur líka komið góð buna og blaðran tæmst án þess að hægt sé að bregðast við því. Þvaglát verða gjarnan tíðari, bæði dags og nætur, og getur þar af leiðandi haft mikil áhrif á nætursvefn. Það er ekkert samhengi milli þvaglátsþarfar og magn á þvagi í blöðru og getur fólk því allt eins átt von á því að missa þvag þó það sé nýkomið af salerninu. Einfaldar orsakir, t.d. þvagfærasýkingar geta legið að baki en stundum er um að ræða flóknari og alvarlegri orsakir eins og t.d. taugasjúkdóma eða krabbamein.
  • Blandaður þvagleki
    Þau sem hafa einkenni bæði bráða- og álagsþvagleka eru sagðir með blandaðan þvagleka.
  • Yfirflæðisþvagleki
    Vegna fyrirstöðu í þvagrás eða þrengingar. Hér er á ferðinni blöðrutæmingarvandamál. Blaðran tæmist ekki sem skyldi, offyllist og „flæðir yfir bakka sína“. Það er mjög algengt að fólk eigi erfitt með að tæma blöðru að fullu en þá situr þvag eftir í blöðru eftir salernisferðir. Þvagið sem situr eftir lekur síðan stjórnlaust úr blöðru skömmu seinna, stundum aðeins nokkrir dropar en öðrum stundum það mikið að föt blotna í gegn. Þetta getur jafnvel komið fyrir í hvert skipti sem staðið er upp af salerninu. Orsakirnar eru einkum langvinn þvagteppa vegna blöðruhálskirtilsstækkunar eða blöðrulömunar/-slappleika vegna t.d. sykursýki eða lyfja. Þvagleki þessi verður oftar en ekki að næturlagi.
  • Algert stjórnleysi á þvaglátum
    Þvagblaðran getur ekki haldið neinu þvagi og það lekur stöðugt eða mjög reglulega.
  • Þvagleki tengdur skertri almennri getu
    Á sér stað þegar almenn líkamleg eða andleg geta einstaklingsins er skert. Þetta gerist við tímabundin eða langvinn veikindi, t.d. giktarsjúkdóma þar sem hreyfigeta einstaklingsins er skert og viðkokmandi nær ekki á salerni í tæka tíð.

Hvað veldur?

Þvagleki eða ósjálfráð þvaglát geta meðal annars stafað af:

  • þvagfærasýkingu
  • Taugasjúkdómum
  • Áfengisvandamálum
  • Afleiðingum barnsburðar
  • Hægðatregðu
  • Óráði
  • Hreyfingarleysi
  • Streitu eða öðrum langvinnum kvillum.

Algengt er að vandamálið tengist öldrun. Með aldrinum minnkar blóðflæði til nýrna og hæfni þeirra til að útskilja lyf, og þvagblaðran missir teygjanleika og tæmist verr. Hjá körlum getur stækkun blöðruhálskirtils haft áhrif.

Utanaðkomandi þættir, eins og slæmt aðgengi að klósettum, óhentugur klæðnaður eða takmarkað næði og tími, geta einnig valdið þvagleka.

Meðferð við þvagleka

Hægt er að gera ýmislegt til þess að fyrirbyggja þvagleka og má þar helst nefna: grindarbotnsæfingar, reglubundna hreyfingu og blöðruþjálfun þar sem viðkomandi reynir að halda í sér og hemja þvagblöðruna. Einnig er hægt að grípa til blöðrudempandi lyfja. Meðferðin ræðst þó á því hvers kyns vandamálið er og best er að velja meðferð í samráði við lækni eða annað fagfólk.

Gott er þó að hafa í huga að sumir drykkir og sum fæða er blöðruertandi og má þar helst nefna kaffi, te, áfengi og súrir drykkir/fæða. Auk þess er alltaf gott að skipuleggja reglulegar klósettferðir yfir daginn og fara alltaf á salernið fyrir nóttina. Þá þarf að huga að aðgengi og ytri aðstæðum.

Þvaglekavörur

Rétt val og notkun þvaglekavara getur bætt lífsgæði fólks með þvagleka. Velja skal minnstu vöru sem hægt er en eins stóra og þörf er á og endurmeta reglulega. Undirlegg og undirbreiðslur fyrir rúm eða stóla geta verið gagnlegar, en þau geta krumpast og aukið hættu á þrýstingssárum.

Ekki setja eina þvaglekavöru innan í aðra, þar sem það truflar virkni vörunnar.

Rakamagnslínur sýna hvenær varan er mettuð og hvort hún dreifir þvagi rétt. Passa þarf að hún sitji þétt að líkamanum og að nærföt styðji vel við.

Ef varan veldur óþægindum eða virkar ekki, skal prófa aðra stærð eða gerð.

Persónulegt hreinlæti

Gott hreinlæti við notkun þvaglekavara dregur úr hættu á sárum og þvagfærasýkingum. Skipta skal um stykki að framan og fjarlægja að aftan til að forðast að bakteríur berist að þvagrás.

Eftir fjarlægingu þarf neðanþvott:

  • Fyrir kvenkynfæri: Þvo varlega við þvagrásarop, strjúka frá þvagrás í átt að endaþarmi.
  • Fyrir karlkynfæri: Draga forhúð aftur, þvo við þvagrásarop og kóng, þurrka og færa forhúð aftur. Þvo pung og strjúka aftur að endaþarmi.

Forðast sterkar sápur, þurrka húð vel og bera vatnsfráhrindandi smyrsl eða rakakrem á, sérstaklega hjá eldra fólki.

Stykki leysa ekki af hólmi salernisferðir og skipta þarf um stykki reglulega, eða minnst 3× á sólarhring.

Húðumhirða

Við notkun þvaglekavara er mikilvægt að halda húð hreinni með mildri sápu og góðum neðanþvotti. Með aldrinum verður húðin þynnri, þurrari og viðkvæmari, sem eykur hættu á áverkum.

Rétt stærð, rakadrægni og öndun þvaglekavöru minnkar þrýsting, tog og núning.

Ef þvag- og/eða hægðarleka er ekki rétt sinnt getur húð orðið rauð, aum og kláðasöm, og jafnvel rofnað eða sýkst af sveppum.

Sérstaklega eru kynfæri, rasskinnar, rassaskora og innanverð læri útsett. Góð húðumhirða og reglulegt viðhald á húð eru lykillinn að því að forðast þessi vandamál.

Húðvörur frá ABENA

Húðin er stærsta líffæri líkamans og krefst góðrar umhirðu. ABENA húðvörur eru þróaðar af sérfræðingum, prófaðar vandlega og eru mildar, rakagefandi og verndandi.

Gráa húðlínan 

Gráa húðlínan frá ABENA er viðgerðalínan þeirra og er sérstaklega hönnuð til þess að bregaðst við hinum ýmsu húðvandamálum, einkum þeim sem kunna að fylgja notkun þvaglekavara.

Vörurnar í gráu húðlínunni hafa hátt fituinnihald sem hjálpar húðinni að viðhalda náttúrulegri fituvörn sinni. Kremin eru þar að auki afar græðandi, rakagefandi og draga úr roða, kláða, þurrki og öðrum húðpirringi. Verndandi eiginleikar gráu línunnar stuðla að heilbrigði húðarinnar og eru sum kremin með þann sérstaka eiginleika að mynda varnarhjúp á húðina sem hrindir frá sér raka.

Barrier Ointment kremið frá ABENA hlutleysir þar að auki ammoníak í þvagi og hægðum og ver húðina því fyrir bakteríum og öðrum óhreinindum.

Hafa í huga

Góðar hreinlætis- og salernisvenjur draga úr hættu á þvagrásarsýkingum og húðvandamálum. Drekka skal nægan vökva og nota þvaglekavöru sem passar vel, andar og hentar þörfum. Vanda til neðanþvotts, þurrka húð og bera verndandi smyrsl á. Skipta skal um þvaglekavöru reglulega, að lágmarki 3× á sólarhring, og muna að hún kemur ekki í stað salernisferða.

Mailbox

Skráðu þig á póstlistann okkar

og fáðu allt það nýjasta í pósthólfið þitt

® 2025 Stórkaup