Beint í efni

Viðskiptaskilmálar fyrir vefverslun Stórkaups

1. Um viðskiptaskilmálana

  1. Þessi síða inniheldur þá viðskiptaskilmála (hér nefndir skilmálarnir) sem gilda þegar viðskiptavinur okkar (hér nefndur viðskiptavinur eða fyrirtæki) kaupir vörur í Vefverslun Stórkaups (hér nefnd verslunin), en hún er verslun á Vefnum sem er rekin eingöngu fyrir fyrirtæki. Nálgast má verslunina á vefsetri sem er aðgengilegt á vefslóðinni www.storkaup.is og netfang verslunarinnar er storkaup@storkaup.is. Verslunin er rekin af okkur, Stórkaup ehf., kt. 600122-2820 (hér nefnt seljandi eða við), Skútuvogi 9, 104 Reykjavík, s. 515 1500. Stórkaup er heildverslun sem þjónar einkum stórnotendum með aðföng á breiðum grunni þar sem leiðarljósin eru hagkvæmni, nútímalegt þjónustustig og einfalt skipulag sölu og dreifingar. Stórkaup er í eigu félagsins Hagar hf., kt. 670203-2120.
  2. Í skilmálunum er fjallað um skilyrði þess að fá aðgang að og nota verslunina, upplýsingagjöf til viðskiptavina fyrir samningsgerð vegna vörukaupa í versluninni, auk ýmissa annarra atriða um hana.
  3. Til þess að geta keypt vörur í versluninni þarf fyrirtæki áður að staðfesta að hafa kynnt sér skilmálana vandlega og samþykkt þá.
  4. Skilmálarnir eru ávallt aðgengilegir á vefsíðu verslunarinnar. Við áskiljum okkur rétt til að breyta þeim án fyrirvara. Í lok skilmálanna kemur fram hvenær núgildandi útgáfa tók gildi til þess að fyrirtæki geti séð hvort þeir hafi breyst frá því að það notaði verslunina síðast.

2. Viðskipti við verslunina

  1. Aðgangur að versluninni er takmarkaður við þá sem stunda fyrirtækjarekstur, þ.e. fyrirtæki í atvinnurekstri sem hafa óskað eftir aðgangi að versluninni og við höfum samþykkt umsóknina. Almennum neytendum er því alfarið óheimill aðgangur að versluninni. Skilyrði fyrir viðskiptum í versluninni er að við könnum áður lánshæfismat fyrirtækisins hjá fjárhagsupplýsingastofu, nú CreditInfo hf. Með því að samþykkja skilmála þessa lýsir fyrirtæki sem sækir um aðgang að versluninni því yfir að það samþykki slíka könnun.
  2. Notkun verslunarinnar er með öllu óheimil nema í samræmi við ákvæði skilmálanna.
  3. Allar tilraunir til að brjóta („hakka“) eðlilega virkni verslunarinnar, til dæmis til að komast fram hjá aðgangshindrunum, fara fram fyrir röð í bið eftir vinsælli vöru, skerða aðgengi að versluninni, breyta verðum eða vöruframboði í henni eða safna upplýsingum um fjölda af vörum í einu („skrapa“), eru með öllu óheimilar.
  4. Viðskiptavini er skylt að varðveita auðkenni að aðgangi sínum að versluninni (t.d. rafræn skilríki) þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir það. Öll notkun aðgangs fyrirtækisins að versluninni skal vera alfarið á ábyrgð þess. Ef fyrirtæki grunar að óviðkomandi hafi komist yfir auðkenni að aðgangi sínum í versluninni ber því að tilkynna það án tafar á netfang verslunarinnar, sbr. 1.1 hér að framan.
  5. Ef viðskiptavinur notar persónugreinanleg auðkenni starfsfólks síns til auðkenningar á aðgangi sínum að versluninni eða í samskiptum við seljanda, svo sem kennitölur (vegna rafrænna skilríkja) eða persónugreinanleg netföng og nöfn starfsmanna (í samskiptum við seljanda), þá ber viðskiptavinur ábyrgð á að til staðar sé heimild fyrir slíkri vinnslu skv. gildandi lögum um persónuvernd, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (hér nefnd pvl.). Þá ber viðskiptavinur ábyrgð á að veita hinum skráðu fræðslu um vinnsluna í samræmi við ákvæði laganna, svo sem um réttindi hans, sbr. einkum 17. gr. pvl. Af því tilefni veitir seljandi eftir­taldar upplýsingar um vinnsluna:Einu persónuupplýsingarnar sem unnið er með í versluninni eru um starfsfólk viðskiptavina og eini flokkur persónuupplýsinga sem unnið er með eru tengiliðaupplýsingar, nánar tiltekið nöfn, netföng og kennitölur einstaklinga, í þeim tilgangi að tryggja rétta auðkenningu á aðgangi viðkomandi fyrirtækis að versluninni. Að auki er í vefversluninni unnið með ópersónugreinanlegar upplýsingar og upplýsingar sem tengjast fyrirtækinu, svo sem vinnusímanúmer.Í versluninni er eingöngu unnið með umræddar persónuupplýsingar í þeim tilgangi að tryggja rétta auðkenningu á aðgangi viðkomandi fyrirtækis að henni og hafa samskipti um kaup fyrirtækisins á vörum í versluninni.Umræddar persónuupplýsingar eru varðveittar á meðan viðskiptasambandi stendur við viðkomandi viðskiptavin en kann þó að verða eytt fyrr, t.d. ef fyrirtæki afskráir í versluninni kennitölu starfsmanns sem upplýsingar til auðkenningar á aðgangi fyrirtækisins.Unnið er með persónuupplýsingarnar annars vegar í auðkenningarþjónustu sem rekin er af innlendum þjónustuaðila okkar og hins vegar í upplýsingakerfi verslunarinnar sem rekið er af vinnsluaðila okkar og hýst, ásamt öllum upplýsingum, innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Hins vegar er vakin sérstök athygli viðskiptavina á því að þeir undirvinnsluaðilar sem veita okkur notendaþjónustu varðandi rekstur upplýsingakerfis verslunarinnar eru sumir hverjir staðsettir fyrir utan EES en geta fengið aðgang að kerfinu til að aðstoða okkur varðandi atriði sem koma upp við rekstur kerfisins. Þessir undirvinnsluaðilar kunna að vera staðsettir í ríkjum, einkum Bandaríkjunum, þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun Evrópusambandsins um að vernd persónuupplýsinga sé fullnægjandi og að viðeigandi verndarráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja þær og vinnslu þeirra.Við miðlum persónuupplýsingum úr versluninni ekki til annarra en vinnsluaðila okkar skv. framangreindu nema samkvæmt fyrirmælum þar til bærra dómstóla eða stjórnvalda sem við heyrum undir.
  6. Viðskiptavinur ber ábyrgð á að uppfæra skráningu í versluninni hverju sinni, svo sem á netfangi og starfsstöð fyrirtækisins, prókúruhafa og annarra skráðra notenda sem er heimilt að nota aðgang fyrirtækisins, svo við getum átt í samskiptum um þau kaup sem fyrirtækið framkvæmir í versluninni og, þegar um heimsendingu er að ræða, sent keyptar vörur á rétta starfsstöð.
  7. Við birtum í versluninni lýsingar á þeim vörum sem eru þar til sölu. Við birtum einnig eftir því sem tilefni gefst lýsandi ljósmyndir af vörunum.
  8. Ef fyrirtæki kaupir vöru í verslun okkar og staðfestir kaupin með því að gefa upp gildan greiðslumiðil sem við tökum við á hverjum tíma, svo sem greiðslukort, sem skuldfærsla tekst á fyrir söluverði og eftir atvikum sendingarkostnaði, þá kemst þar með á samningur milli fyrirtækins og okkar um kaup á þeirri vöru sem svarar til þess vörunúmers sem fyrirtækið valdi í versluninni. Skuldfært söluverð inniheldur virðisaukaskatt og allan annan aukakostnað okkar af að bjóða fyrirtækinu vöruna til kaups en að auki er skuldfært fyrir sendingarkostnaði þar sem hann á við, sbr. 2.10 hér neðar.
  9. Sé fyrirtæki ekki í reikningsviðskiptum þá afhendum við ekki vörur fyrr en greiðsla hefur borist. Okkur er heimilt að falla frá kaupum ef mistök hafa orðið í skráningu vöru, svo sem ef rangt verð birtist í versluninni eða ef vara er ekki lengur til.
  10. Viðskiptavinur getur valið, við kaup á vörum í versluninni, að koma og sækja þær til okkar á opnunartíma, sér að kostnaðarlausu. Fyrirtæki getur einnig fengið vörurnar sendar, á þá starfsstöð sína sem fyrirtækið tiltók á nýskráningarformi fyrir viðskipti í versluninni, gegn sendingargjaldi skv. verðskrá okkar hverju sinni, sjá afhendingarmöguleikar. Fyrirtæki þarf að sækja pantaðar vörur innan 5 daga, eftir þann tíma lítum við svo á að fallið hafi verið frá kaupunum og munum bakfæra þau. Ef viðskiptavinur óskar eftir að við sendum þær vörur sem fyrirtækið kaupir hjá okkur þá takmarkast okkar ábyrgð á týndum sendingum eða tjóni sem kann að verða á vöru í flutningi við að senda fyrirtækinu annað eintak af sömu vöru. Við kaupum ekki tryggingar vegna flutnings á vörum til viðskiptavinar og hvetjum því þá sem vilja aukna ábyrgð til að kaupa eigin tryggingar. Við hvetjum viðskiptavini því til að gæta vel að því að sumar vörur geta spillst, svo sem vegna hitabreytinga, í flutningi eða ef þær eru skildar eftir til afhendingar, t.d. fyrir utan starfsstöð þína. Allir vöruflutningar fara fram með eigin flutningabifreiðum okkar eða með flutningafyrirtækinu Flytjanda. Jafnan eru vörur keyrðar út á höfuðborgarsvæðinu (afhentar Flytjanda ef sent er út fyrir höfuðborgarsvæðið) næsta virkan dag ef keypt er fyrir kl. 14:00 á virkum degi en vörur sem keyptar eru eftir þann tíma eru jafnan keyrðar út einum virkum degi síðar. Þó að stefnt sé að afhendingu innan þessara fresta þá getur það dregist, svo sem vegna óvenjumikils álags eða annarra óviðráðanlegra ástæðna.

3. Rangar eða skemmdar vörur

  1. Seljandi bregst við þeim erindum sem honum berast frá viðskiptavinum, svo sem í tölvupósti, símleiðis eða af vefsíðu verslunarinnar. Til þess nýtir hann þær upplýsingar sem berast í slíkum erindum og viðskiptavinur er upplýstur um að seljandi kann að miðla upplýsingunum til annarra í þeim tilgangi. Viðskiptavinur ber einn ábyrgð á þeim upplýsingum sem er miðlað er af hans hálfu til seljanda og skal einungis miðla til hans ópersónugreinanlegum upplýsingum.
  2. Ef viðskiptavinur hefur fengið ranga eða gallaða vöru afhenta skal hann, innan 2ja daga frá afhendingu vöru, senda afdráttarlausa tilkynningu um það með tölvupósti á netfang verslunarinnar ásamt upplýsingum um söluna og samskiptaupplýsingum sínum. þ.e. netfangi og símanúmeri. Hafi vara hins vegar skemmst í meðhöndlun þriðja aðila, svo sem flutningsaðila, er það forsenda þess að komi til endurgreiðslu að viðskiptavinur skal gera athugasemd við flutningsaðila um það strax við vöruafhendingu, auk þess að upplýsa Stórkaup. Gallaðar eða rangt afgreiddar vörur utan höfuðborgarsvæðisins skulu endursendar til Stórkaups með Flytjanda en þó einungis að fyrirfram höfðu tafarlausu samráði við Stórkaup. Til að forðast óþarfa kostnað getur Stórkaup ákveðið að nóg sé að fá sendar ljósmyndir af gölluðum vörum til staðfestingar galla eða rangrar afgreiðslu. Sé framangreindum skilyrðum fullnægt er biðgreiðsla fyrir vefviðskiptin leiðrétt, eftir atvikum, varan endurgreidd með millifærslu á bankareikning, eftir að varan hefur borist Stórkaupi og hefur verið yfirfarin eða ef galli eða röng afgreiðsla hefur verið staðfest af starfsmanni Stórkaups á grundvelli annarra upplýsinga.
  3. Að öðru leyti en hér kemur fram og viðskiptavini er tryggður réttur í gildandi lögum á hverjum tíma hefur hann ekki heimild til að falla frá kaupum á vörum í versluninni.

4. Lokun reiknings viðskiptavinar

  1. Skráning fyrirtækis sem viðskiptavinar verslunarinnar gildir ótímabundið, fari það að skilmálunum. Vilji fyrirtæki segja upp viðskiptum sínum í versluninni þá er það hægt með því að prókúruhafi óski eftir slíku með sannanlegum hætti og er viðskiptareikningur fyrirtækisins þá gerður upp og honum síðan lokað.
  2. Okkur er heimilt að segja viðskiptum upp án fyrirvara og loka reikningi fyrirtækis án sérstakrar tilkynningar, svo sem ef það brýtur gegn skilmálunum. Þá áskiljum við okkur rétt til að krefjast skaðabóta vegna tjóns sem leiðir af brotum á þeim.

5. Gildandi lög, samningsvarnarþing og útgáfa skilmálanna

  1. Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi dómsmál um ágreining milli aðila í tengslum við þá skal það mál rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
  2. Seljanda er allt að einu heimilt að leita aðstoðar dómstóla og stjórnvalda hvar í heimi sem er til framkvæmdar aðfarargerða eða annarra sambærilegra ráðstafana til að tryggja réttindi sín og fá skyldur samkvæmt skilmálunum uppfylltar.
  3. Þessi útgáfa skilmálanna er frá 12. júní 2025 og gildir um öll kaup í versluninni sem eiga sér stað frá og með þeim degi.

Útgáfa: 2.0 – 12. júní 2025

Mailbox

Skráðu þig á póstlistann okkar

og fáðu allt það nýjasta í pósthólfið þitt

® 2025 Stórkaup